Betlarar
12.9.2007 | 22:19
Rosalega lýst mér vel á að Geir Jón fjölmenni með trúbræður sína í miðbæinn um helgar, ekki væri slakara ef hann fengi trúbadorinn og betlarana á Ómega með í för. Eiríkur og Laufdalinn yrðu í broddi fylkingar og miðbærinn myndi þagna með það sama, flestir hávaðaseggirnir tækju til fótanna og þeir sem ekki hefðu vit á að forða sér í tæka tíð, dyttu niður dauðir úr leiðindum. Mín skoðun er sú að Eiríkur sé ekki bara leiðinlegur, heldur gæti hann auðveldlega orðið landsliðsmaður í leiðindum ef slíkt lið væri til. Aftur á móti finnst mér Laufdalinn svo yfirgengilega væminn, spjátrungslegur og gjörsamlega laus við persónutöfra, en þeir eiga svo sannarlega ekki í vandræðum með að tala, mala þindarlaust hvor í kapp við annan. Líflegir hálskirtlarnir í þessum mönnum.
Svo myndu lögreglulaunin að sjálfsögðu renna óskert til betlaranna á Omega þannig væri þeim sem hafa gaman af að horfa á umrædda sjónvarpsstöð hlíft við sífelldum sníkjunum í þessum annars hástemmdu höfðingjum.
Það er örugglega ekkert svo slæmt, að þessir menn geti ekki læknað það með kraftaverki.
Góða nótt og sofið rótt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.