Er ég nauðsynleg?
12.11.2008 | 11:05
Mér finnst alveg furðulegt hvað fólk getur endalaust karpað um hvort Guð sé til eður ey, sumum verður svo heitt í hamsi ef minnst er Guð eða trúmál að þeir hreinlega missa sig út í skítkast og leiðindi og fullyrða að það sé sko enginn Guð til, stundum hef ég á tilfinningunni að þeir hinir sömu rugli sér jafnvel saman við Guð, ég trúi á Guð "minn æðri mátt" ég veit ekki hvernig ég ætti að komast í gegnum daginn án hans, ég trúi á mátt sem er mér æðri, það hefur einhvernvegin aldrei hvarflað að mér að ég sé æðst allra, hins vegar hef ég aldrei lesið biblíuna og hef enga löngun til að lesa hana, ég þarf heldur ekkert að fara í kirkju til að tala við Gussa eða hlusta á presta predika, fer samt stundum í kirkju og þá af því að mér finnst presturinn sem er að predika í það skiptið skemmtilegur og efnið áhugavert, það eru sem betur fer til skemmtilegar messur á Íslandi líka þó sjaldgæfar séu, það er að segja fyrir minn smekk.
Mín bæn í dag og aðra daga hljómar svona.
Guð "æðri máttur" eins og ég skil þig
þú veist hvað er best fyrir mig
lát þetta eða hitt gerast eins og þú vilt
gef það sem þú vilt
eins mikið og þú vilt
og þegar þú vilt.
Guð "æðri máttur"
Ég afhendi þér vilja minn og líf til varðveislu í dag. Verði
vilji þinn, ekki minn. Ég bið um leiðsögn þína og leiðbeiningu.
Ég ætla að ganga í auðmýkt með þér og sköpun þinni.
Þú gefur mér þakklátt hjarta fyrir alla þá blessun sem þú hefur
blessað mig með. Þú ert að fjarlægja skapgerðabrestina sem eru
hindrun í lífi mínu. Þú gefur mér frelsi frá einþykkni minni.
Gef að kærleikur, samúð og skilningur fylgi hverri hugsun,
orði og verki í dag. Ég afhendi þér þá sem hafa komið illa fram við mig.
Ég þrái einlæglega sannleika þinn, ást, eindrægni og þann frið
sem þú átt svo mikið af.
Þegar ég fer út í dag til að gjöra vilja þinn, gef að ég megi rétta hverjum þeim hjálparhönd sem ég get og ekki er jafn gæfusamur og ég.
Minn æðri verndarkraftur hefur bjargað mér hingað til.
Ég er viss um að hann mun einnig vernda mig í dag.
Að öðlast trú á að framtíðin jafnt sem fortíðin sé í höndum Guðs,
léttir af okkur nauðsyn þess að hafa áhyggjur. Samt sem áður er ekki auðvelt að hætta að hafa áhyggjur. Það er okkar annað eðli, en með stöðugri þjálfun getum við látið af því.
Þakklæti losar okkur við neikvætt viðhorf. Ákvörðunin um að vera þakklátur fyrir kringumstæður okkar, lífsreynslu, okkar sérstaka viðhorf, breytir fljótt skoðun okkar á öllu sem gerist núna, og á öllu sem við mætum. Að viðurkenna að við ráðum hvernig dagurinn verður, neyðir okkur til að bera ábyrgð á þeirri gleði sem getur ávallt fallið í okkar skaut, eða óhamingju okkar. Að vera þakklátur er svo góð tilfinning.
Ég er svo lánsöm að eiga æðri máttarvöld sem ég get talað við í dag.
Ég get verið viss um að það verður annast um mig.
Þó að við gleymum Guði
þá gleymir hann okkur ekki.
Er Guð nauðsynlegur? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef þú þarft að trú á tilvist einhvers ósýnilegs súperkarls til að komast gegnum daginn, þá áttu bágt.....
Púkinn, 12.11.2008 kl. 11:15
Kæri Púki, ég þarf ekki trú á ósýnilegan súperkarl til að komast í gegnum daginn, ég minnist hvergi á þannig gaur í mínum skrifum, en hitt er alveg rétt hjá þér að ég á stundum soldið bágt rétt eins og þú og allir aðrir, ég tala um minn æðri mátt, sem sagt eitthvað sem er mér æðra, ég hef enga þörf fyrir að skilgreina minn æðri mátt eitthvað frekar, hvað þá að ég sé eitthvað að persónugera hann.
Eigðu svo góðan dag og takk fyrir innleggið.
hofy sig, 12.11.2008 kl. 11:34
Mér finnst þetta nokkuð magnaður vinkill, í það minnsta fyrirsögnin. Þetta er miklu merkilegri spurning. Ég er líka sammála þér með persónulega trú, ég þarf ekki á neinum að halda til þess að segja mér hvað ég á að hugsa hvort sem það eru trúlausir eða trúaðir. Ég vel mér þann vísdóm sem ég skil og eftir því sem við á, því ef tilveran er eitthvað þá er hún breytingar.
Sveinn Ríkarður Jóelsson, 12.11.2008 kl. 12:21
Sæl Hófý Sig
Mér sýnist á bæn þinni að þú hafir átt eitthvað erfitt um ævina. Þú getur beðið sömu hluta án þess að biðja þeirra til Guðs. Bæn er ekkert annað en áminning til sjálfs síns um þau markmið sem maður vill setja sér og þannig getur hún komið að gagni. Þú þarft ekki guð til þess að byggja upp líf þitt. Auðvitað ert þú sjáf nauðsynleg. Það er ekki þar með sagt verið að setja þig uppá stall. Þú þarft ekki að vera með einhverja yfirmáta auðmýkt og bugtir gagnvart einhverri guðshugmynd eða öðru. Það þarf heldur ekki að stæra sig af því sem sjálfsagt er, þ.e. að vera velviljuð og kærleiksrík manneskja. Prufaðu að hugsa sjálfstætt og lifa dagana eftir góðum lífsreglum óháð himnaveru. Það er allt sem þú þarft ásamt ástríki þinna nánustu. Bestu kveðjur - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 12.11.2008 kl. 13:14
Sveinn. Ég er alveg hjartanlega sammmála.
Svanur. Já ég hef oft átt erfitt um æfina, og jú ég þarf Guð til að hjálpa mér að byggja upp líf mitt, af hverju telur þú þig þess umkomin að vita hvað ég þarf eða hvað ég þarf ekki? Ég er ekki að stæra mig af því að vera velviljuð eða kærleiksrík enda er ég það alls ekki alltaf, ég hugsa sjálfstætt svona oftast nær að minnsta kosti, það er og hefur aldrei verið skortur á ástríki minna nánustu, ég legg til að þú takir á móti æðri mætti inn í líf þitt, þá myndir þú finna hvað það er gott að vera stundum soldið auðmjúkur og æðrulaus, ég er samt alls ekki að segja að þú verðir að gera það, bara að benda þér á að það gæti orðið þér og þínum nánustu til góðs.
Kv. Hófý Sig.
hofy sig, 12.11.2008 kl. 13:50
Sæl að nýju Hófý Sig
Ég er aðeins að gefa ráð eftir því sem ég best þekki. Ég tel þig ekki þurfa Guð því hann er ekki til nema í hugum fólks og er ekki gagnlegt hugtak. Aftur ýmislegt siðferðislegt í trúarbrögðum er gagnlegt ásamt því að eiga samfélag með öðru fólki. Ég tel mig "umkominn" að ráðleggja þetta því ég hef skoðað þetta mjög rækilega. Ég hef sama rétt til að boða mína skoðun eins og trúboðar boða trú sína. Enginn þarf að hlusta en þar sem almenn skoðanaskipti eru leyfð þá hlýtur að vera í lagi að tjá sig. Ég þakka þér þín ráð en ég þarf ekki Guð til að vera æðrulaus eða hógvær, ekki frekar en ungabarnið sem hefur enga vitneskju um Guð. Æðruleysi er forn dyggð og meistarar hennar voru stóistar Forn-Grikkja á 1-2 öld fyrir upphaf vors tímatals og Forn-Rómverjar á 1-2. öld. Það er góð lesning að kynna sér stóismann. Bestu kveðjur - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 12.11.2008 kl. 14:21
Sæll Svanur. Þú ert alveg sannfærður um að Guð sé alls ekki til, ég er aftur á móti sannfærð um að hann sé til og hef svo oft fundið hvað hann er góður þó ég hafi stundum gleymt honum hefur hann aldrei gleymt mér, hann er alltaf til staðar fyrir þá sem til hans leita, það er að minnsta kosti mín einlæga trú, kannski kynni ég mér stóismann einhverntíman fyrir forvitnissakir.
Bestu kveðjur. Hófý Sig.
hofy sig, 12.11.2008 kl. 14:33
Takk - bk Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 12.11.2008 kl. 14:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.