Hvar er náungakærleikurinn?
22.5.2008 | 12:52
Mig langar aðeins að tjá mig um komu flóttafólks hingað til okkar á Skagann. Þar sem mér finnst mjög sorgleg umræða vera í gangi og fólk soldið mikið ætla að allir Skagamenn séu eindregið á móti komu þessara einstaklinga hingað á Akranes. Það er mikill misskilningur að Skagamenn séu almennt ekki tilbúnir að taka vel á móti þessu fólki. Fyrst í stað leist mér ekkert allt of vel á komu þeirra, en ég hef algjörlega skipt um skoðun. Undirskriftarlistar hafa skilst mér gengið hér um í bæjarfélaginu til að mótmæla komu þeirra, það eitt og sér finnst mér persónulega svo yfirgengilega aumingjalegt og lágkúrulegt að ég á hreint ekki orð yfir það.
Þessar konur eiga akkúrat ekki neitt, jú annars þær eiga heil mikið, þær eiga nefnilega börnin sín, að minnsta kosti ennþá. Konurnar og börnin þeirra hafa horft upp á þvílíkar hörmungar og við gætum ekki ýmindað okkur þann sársauka sem þau hafa upplifað, jafnvel þó að við værum öll af vilja gerð.
En við getum hjálpað þeim og það er siðferðisleg skilda okkar að leggja eitthvað af mörkum stríðsþjáðum þjóðum til handa. Það eru um 100 manns á biðlista hér eftir félagslegu húsnæði, sem er að sjálfsögðu ekki gott, en það kemur þessu máli bara alls ekkert við, þetta fólk fer ekki í félagslegt húsnæði. Það koma peningar frá ríkinu með þeim eins og öllum ætti að vera orðið ljóst. Flóttafólkið er ekki að fara að taka peninga úr félagslega batteríinu hér, og biðlistar hvorki lengjast né styttast út af þeim.
Ég hef rætt við marga Skagamenn sem eru tilbúnir að taka vel á móti þessu illa stadda fólki, ég hef líka heyrt í fólki sem er meir en tilbúið að vera stuðningsfjölskylda fyrir þau, það heyrist því miður alltaf hæst í hávaðaseggjunum, ekki satt?
Ég mundi vilja sjá að þessum ljótu undirskriftarlistum yrði eytt og þið sem eruð svona mikið á móti komu þessa fólks hingað til okkar vil ég segja, endurskoðið hug ykkar, prufið að setja ykkur í þeirra spor, hugsið um litlu börnin sem aldrei hafa fengið að lifa eðlilegu lífi.
Æ sér gjöf til gjalda". Ef þið ætlist til umburðarlyndis gagnvart ykkur sjálfum er ekki nema sanngjarnt að þið gjaldið líku líkt.
Sem betur fer þekkjum við ekki lífsbaráttu fólksins sem um ræðir af eigin raun, það þýðir samt ekki að við getum ekki að minnsta kosti reynt að setja okkur í þeirra spor, sleppa sjálfshyggjunni og eigingirninni og draga fram góðu kostina, kærleikann, náungakærleikann og umburðalyndið. Þetta á alls ekki að snúast um pólitík, sem það þó því miður gerir, ég hef tekið þá ákvörðun að kjósi Frjálslynda flokkinn ekki aftur, að minnsta kosti ekki eins og hann lítur út núna.
Höfum tekið á móti 481 flóttamanni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það var kominn tími til þess að heyra frá Skagamönnum með hið rétta hjartalag.
Íslendingar eru upp til hópa gott fólk og hafa samúð með þeim sem illa eru staddir. Það er að vísu alltaf lítill hópur sem skortir víðsýni, og það eru til stjórnmálahreyfingar sem reyna að fiska í gruggu vatni. Takk fyrir þetta Hófý.
Hjálmtýr V Heiðdal, 22.5.2008 kl. 13:25
Ég hef nú grunn um að þú talir fyrir munn margra Skagamanna þarna. Í það minnsta hef ég ekki orðið var við andúð í garð flóttamanna hjá þeim sem ég hef talað við á Skaganum að undanförnu. Mér finnst umræðan um þetta líka hafa verið alveg út úr kortinu og Skagamenn settir undir einn átt í þessum málum. Ég gat heldur ekki lesið neinn rasisma eða andúð á flóttamönnum út úr yfirlýsingu magnúsar Þórs. Þeir Skagamenn sem sýna andúð í þessu máli eru fyrst og fremst óánægðir með frammistöðu bæjarstjórnar og þá helst í húsnæðis,- skóla- og leikskólamálum, enda biðlistar bæði eftir húsnæði og leikskólaplássum, sem er ekki nógu gott. Mér finnst æskuslóðirnar hafa fengið ómaklega umfjöllun vegna þessa máls.
Haraldur Bjarnason, 22.5.2008 kl. 17:37
...ps. átti að vera: settir undir einn hatt....en ekki átt
Haraldur Bjarnason, 22.5.2008 kl. 17:38
Já einmitt það er ömurlegt að lesa um að fólkið hérna á Skaganum sé almennt á móti komu flóttafólksins, því það er alls ekki rétt, að minnsta kosti hef ég ekki heyrt marga amast við því heldur þvert á móti, þeir sem ég umgengst eru flestir mjög svo jákvæðir, það heyrist bara miklu hærra í þeim sem eru á móti. Nýr leikskóli verður tilbúinn í ágúst og þá held ég að engir biðlistar verði til lengur, svo bara reddum við hinu með samstilltu átaki, ég hef enga ástæðu til að ætla annað en Skagamenn taki vel á móti þessum einstæðu mæðrum og börnum þeirra, þau eru svo sannarlega velkominn.
hofy sig, 22.5.2008 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.