Óhollur jólamatur
27.12.2007 | 00:02
Er ekki bara málið að hætta að borða reykt kjöt, að minnsta kosti finnst mér að þeir sem eru með aldrað fólk í mat um jólin verði að spá í hvað þeir eru að bjóða upp á. Það gengur ekki að bjóða því upp á reykt kjöt í öll mál yfir jólin. Foreldrar mínir eru hjá systir minni á aðfangadag og hún einfaldlega hætti að vera með hamborgarhrygg í matinn þetta kvöld, andabringur voru á borð bornar hjá henni og smökkuðust mikið vel. Svo í kvöld komu foreldrar okkar til mín ásamt fríðu föruneyti, sum sé stórfjölskyldan í mat, við borðuðum lambalæri í stað hangikjöts, en hangikjöt hefur verið snætt svo lengi sem mig rekur minni til í minni fjölskyldu á annan í jólum, ég get ekki sagt að ég sakni hangiketsins neitt ægilega mikið, alla vega vil ég langtum frekar hafa mína mömmu og minn pabba heil heilsu heldur en að slafra í mig hangikjöti.
Þetta reykta kjöt er svo slæmt fyrir blóðþrístinginn og hundvont í magann líka, þess vegna finnst mér hinn mesti óþarfi að vera að taka einhverja sénsa. Ef að einhverjum finnst engin jól vera án hangikjöts, nú þá er fólk barasta alls ekki í góðum málum segi ég, jólin eru og eiga ekki að vera bara gamall vani, heldur ættu allir að minnsta kosti reyna að finna frið innra með sér, og láta gott af sér leiða, kærleikur, gleði og hamingja skapa rétta andrúmsloftið og laða fram það besta í okkur manneskjunum, það er algjört aukaatriði hvort við fáum hangikjöt, rjúpur eða eitthvað allt annað í matinn á jólunum, leyfum kærleikanum að flæða frjálst, þegar við sleppum honum lausum kemur hann margfalt til baka og veitir gleði og blessun öllum sem hann snertir. Kærleikurinn er það besta sem til er í heiminum.
Eitthvað varð þetta nú lengra en ég ætlaði að skrifa, ætlaði bara að tala um óhollan mat, en stundum kemur eitthvað alveg óvænt í framhaldinu.
Góða nótt kæru vinir og sofið rótt...
Átu yfir sig um jólin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.